hertz-hvitur_grunnur

jako

ao

wise

Fréttir
27.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Guðni Valur Guðnason 4. á móti í Svíþjóð í kvöld

Guðni Valur Guðnason kringlukastari úr ÍR vað 4. á móti í Svíþjóð í kvöld. Hann kastaði 59.12 m em er ágætur árangur þó svo að það sé ekki alveg við hans besta. Mótið vannst á 64.24 m en þar var á ferðinni Daniel Stahl en hann eins og Guðni er á leiðinni til RÍÓ annar keppandi í kringlunni í kvöld, Axel Harthsted er einnig á lið til RÍÓ en hann kastaði 61,39 m. Guðni hefur kastað lengst 61,85 m í ár en hann á best 63,50m en árangurinn í kvöld er hans 9. besti frá upphafi. Guðni keppir aftur á laugardag og þá í Finnlandi. 

25.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

ÍR hafnaði í öðru sæti á MÍ aðalhluta, konurnar sigruðu

Lið ÍR sigraði í stigakeppni kvenna á MÍ um helgina. ÍR konur hlutu 18.740 stig en lið FH 16.417 stig. Karlalið ÍR varð í 2. sæti með 13.598 stig en lið FH hlaut 21.033 stig. Í heildarstigakeppninni varð FH hlutskarpast með 37.450 stig en lið ÍR 32.328 stig. Sigurvegarar úr röðum ÍR á seinni degi voru Hlynur Andrésson í 5000m en hann varð 3. í 800m og hlaut þar dýrmæt stig. Ívar Kristinn Jasonarson sigraði í 400m grindahlaupi og gerði sér lítið fyrir og bætti sig 52,70 sek sem er flottur tími. Krister Blær Jónsson sigraði í stangarstökkinu stökk 4.62 m og stökk 10 cm hærra en næsti maður. Krister á flottri braut í stönginni. Þorsteinn Ingvarsson sigraði í þrístökki, Óðinn Björn Þorsteinsson í kúluvarpi og Olympíufarinn Guðni Valur Guðnason í kringlukasti. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir varð í 2. sæti í 200m og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir 3. Guðbjörg setti nýtt aldursflokkamet í flokkum 15 ára og 16-17 ára stúlkna, glæsilegur árangur hjá henni.  Guðbjörg gerði sér svo lítið fyrir og sigraði 400m grindahlaupið á fínum tíma. Sveit ÍR varð síðan í 2. sæti í 4 x 400m boðhlaupinu. Það var hörð barátta í þrístökkinu og sigraði Vilborg María Loftsdóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir varð 3. Þrjár ÍR stúlkur í top 6 í þessari grein sem oft hefur átt undir högg að sækja. Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í 3000m og Fríða Rún Þórðardóttir varð 2. eftir mikinn endasprett og keppni við Helgu Guðnýju í Fjölni. Thelma Lind Kristjánsdóttir varð síðan í 3. sæti í kringlukastinu og Vignir Már Lýðsson varð 2. í 5000m og Vilhjálmur Þór Svansson 3. Margar góðar greinar hjá ÍR liðinu en nokkra lykilkeppendur vantaði þar á meðal Anítu Hinriksdóttur og Huldu Þorsteinsdóttur og sem og Stefán Árna Hafsteinsson, Tristan Frey Jónsson, Snorra Sigurðsson og Sæmund Ólafsson. 

23.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

ÍR leiðir stigakeppni kvenna og er í 2. sæti í heildarstigakeppninni á MÍ aðalhluta

ÍR leiðir stigakeppni kvenna og er í 2. sæti í heildarstigakeppninni á MÍ aðalhluta sem fram fer á Akureyri um helgina. ÍR hefur hlotið 15.183 stig en FH 17.520 stig. Kvennalið ÍR leiðir nokkuð örugglega stigakeppni kvenna með 8.574 stig og um 1160 stigum meira en næsta lið. Sigurvegarar úr röðum ÍR á fyrri degi voru Hlynur Andrésson í 1500m og Þorsteinn Ingvarsson í langstökki. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir sigraði í 100m og hljóp á ársbeta tíma 11,83 sek og Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í 1500m hlaupi en þar varð Fríða Rún Þórðardóttir í 2. sæti. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð 2. í 400m og bætti sig hljóp á 56.17 sek. Ívar Kristinn Jasonarson varð 2. í 100m á 10,90 sek sem er ársbesta hjá honum og Guðmundur Sverrisson varð 2. í spjótkastinu.  Í boðhlaupunum urðu sveitir ÍR í 2. sæti bæði í karla og kvennaflokki en mótsmet var sett í karlahlaupinu. Keppnin heldur áfram á morgun en þá er keppt í 18 greinum og þar á meðal eru margar sterkar greinar hjá ÍR-ingum.

23.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Meistaramót Íslands aðalhluti á Akureyri, 23. - 24. Júlí

Meistaramót Íslands aðalhluti fer fram á Akureyri, 23. - 24. Júlí. ÍR sendir 33 keppendur en um 160 frjálsíþróttamenn keppa á mótinu og tekur flest af okkar helsta afreskfólki þátt nema Aníta Hinriksdóttir og Kári Steinn Karlsson en Aníta er stödd í æfingabúðum fyrir Ólympíuleikana. Keppendur frá ÍR taka þátt í öllum greinum mótsins nema 400m, 3000m hindrunarhlaupi og sleggjukasti í karlaflokki og stefnir liðið á sigur í heildar stigakeppninni og mikið af persónulegum bætingum. Vonandi verða aðstæður góðar á Akureyri og árangur allra keppenda góður. Óskum liðinu góðs gengis.

21.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Tristan Freyr Jónsson hafnaði í 9. sæti á HM 19 ára og yngri, Íslandsmet 19 ára

Tristan Freyr Jónsson hafnaði í 9. sæti af 22 keppendum á HM 19 ára og yngri. Hann setti auk þess glæsilegt Íslandsmet 7.468 stig en fyrra met átti Einar Daði Lárusson ÍR 7.394 stig. Besti árangur Tristans áður var 7.261 stig og bætti hann sig því um 207 stig. Á seinni degi bætti hann sig í spjótkastinu, kastaði 51.51 m og hljóp síðan 1500m á 4:55 mín sem er 6 sek frá hans besta. Í þrautinni bætt hanni sig í 100m, 110 m grindahlaupi, kringlukasti, kúluvarpi og spjótkasti eins og áður segir. Til merkis um árangur keppenda þá var sett mótsmet 8.162 stig, og auk Íslandsmetsins var sett Eistneskt, Norskt og Hvítrússneskt met. Til hamingu Tristan og Þráinn Hafsteinsson þjálfari.

20.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Tristan Freyr í 9. sæti eftir stangarstökkið

Tristan Freyr er nú í 9. sæti eftir stangarstökkið þar sem hann stökk 4.30m og hefur hlotið 6.270 stig. Sá sem leiðir er með mikla yfirburði og er 548 stigum á undan Tristani en mun styttra er í 2. sætið eða rétt yfir 200 stig og um 180 stig í bronsið. Vonandi tekst Tristani vel upp í spjótkastinu og 1500m sem fara fram síðar í dag.

20.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Tristan Freyr með 2 metra bætingu í kringlukasti, er í 8. sæti

Tristan Freyr bætti sig um heila 2 metra í kringlukastinu, varð í 4. sæti í sinni kastgrúppu með 41,41m sem gefur 693 stig. Hann hefur nú hlotið 5.568 stig og er í 8. sæti. Sá sem leiðir er með 6.028 stig og þá 460 stiga forskot á Tristan en aðeins 140 stig skilja að 2. sætið og 8. sætið. Næsta grein er stangarstökk.

20.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Seinni dagurinn hafinn, Tristin í 7. sæti

Tristan Freyr Jónsson byrjaði seinni dag tugþrautarkeppni HM af krafti með því að bæta sig í þraut í 110m grindahlaupinu þegar hann hljóp á 14.19 sek og færir sig upp um eitt sæti hefur hlotið 4.875 stig. Hann varð 4. í sínum riðli sem var sá lang hraðasti en til merkis um gæði hlaupanna þá voru 14 af 23 keppendum tugþrautarinnar að bæta sinn besta tíma. Tristan er nú 312 stig frá fyrsta sætinu og 160 stig frá silfrinu. Næsta grein er kringlukast.

19.7.2016 Fríða Rún Þórðardóttir

Thelma Lind Kristjánsdóttir keppti í kringlukasti á HM

Thelma Lind Kristjánsdóttir keppti í kringlukasti á HM nú síðdegis. Hún kastaði lengst 44.15 m og komst ekki áfram í úrslit en til þess þurftu stúlkurnar að kasta 51.50m eða vera í hópi með þeim 12 bestu sem í dag þýddi að hún hefði þurft að kasta 48,62m. Þetta hafðist því ekki í dag hjá Thelmu, sem á yfir 50m best og hefur hún því lokið keppni á HM. Lengsta kast dagsins var 53,84 m og það næst lengsta 53,83m. Hún varð í 23. sæti.

Þórdís Eva Steinsdóttir FH keppti í undanrásum 400m hlaupsins síðdegis í dag. Hún hljóp á 56,06 sek og varð í 6. sæti í sínum riðli og í 35. sæti. Hún á best 55.32 sek í ár og var því ekki mjög langt frá sínu besta en hefði þurft að hlaupa á 54.97 sek þurfti til að komast áfram í undanúrslit.